Hvað er Asgard
Asgard – Beyond er fyritæki sem sérhæfir sig í fjallaleiðsögn og kennslu í öllu sem viðkemur fjallamennsku. Við bjóðum upp á leiðsögn með faglærðum UIAGM-IFMGA fjallaleiðsögumönnum á Íslandi og í Evrópu.
Asgard-Beyond er lítið fyrirtæki, með risastórt hjarta sem sérhæfir sig í fjallaleiðsögn. Við bjóðum upp á leiðsögn með faglærðum íslenskum UIAGM/IFMGA fjallaleiðsögumönnum á Íslandi og í Evrópu. Ef við værum matvöruverslun, þá værum við líklega kaupmaðurinn á horninu. Persónuleg þjónusta, sveigjanleiki og ánægðir viðskiptavinir er allt eitthvað sem við höfum miklar ástríðu fyrir og viljum virða. Eigendur og leiðsögumenn félagsins bæði hanna og leiðsegja ferðirnar okkar, svo það er ekki inni í myndinni að bjóða upp á neitt nema vita að það sé magnað. Ef viðskiptavinir okkar fá hugmyndir sem eru okkur að skapi, og á okkar sérsviði, þá látum við þær hugmyndir verða að veruleika. Það fyllir okkur miklu stolti að geta gert það. Við gætum þreytt ykkur með langri tölu um IFMGA, UIAGM, ACMG og AIMG vottanir leiðsögumannanna okkar, en það er best að þið googlið það bara, ef þið hafið áhuga. Eða ræðið það yfir kvöldmatnum eða morgunkaffinu í næstu ferð. Stutta skýringin er sú að þú getur treyst Asgard fyrir öllu því fjallabrasi sem þú treystir þér ekki í sjálf(ur). Vittu til, þú munt njóta mest…Um það snýst leikurinn.
Af hverju að velja Asgard
Fimm einstaklingar með sömu framtíðarsýn og fjöll á heilanum stóðu á krossgötum. Úr varð Asgard í byrjun árs 2015. Við vissum þá ekkert endilega alveg hvað við vildum gera, við vissum bara að við vildum gera það saman. Heiðarleiki, ástríða og framfarir eru gildi sem við vorum sammála um að vinna eftir. Þau hafa skilað okkur sorgum og sigrum. Í okkar huga er nefninlega algjörlega óhugsandi að fara alltaf auðveldustu leiðina, aðeins þá bestu. Og besta leiðin á það stundum til að vera svolítið grýtt. Hún leiðir okkur þó oft á fegurstu áfangastaðina, ef þeir eru þá til. Þetta snýst jú allt um ferðalagið sjálft. Við höfum oft velt því fyrir okkur af hverju við höldum áfram að nostra við Asgard, ár eftir ár. Stundum væri vissulega miklu einfaldara að reka ísbúð eða bakarí. Allar vangaveltur leiða okkur ávalt að sömu niðurstöðunni. Við erum í aðstöðu til að láta drauma rætast. Við getum stutt fólk í að takast á við persónulegar áskoranir. Við viljum hjálpa fólki að vaxa. Því fleiri sem skilja að við erum bara gestir á þessari stórkostlegu jörð, því betra.